Þetta minnti hann á móður hans, sem átti við hreyfivanda að stríða síðustu æviárin. „Hún var vön að missa hluti og skilja þá eftir þar,“ sagði hann.
Þetta var fyrir níu árum síðan og ákvað Kane að taka lífsstílinn í gegn. Hann hefur síðan þá misst 120 kíló.
Kane er 76 ára frá Írlandi. Hann var hluti af klínískri rannsókn á St. Vincent sjúkrahúsinu og byrjaði að taka lyfið liraglutide, sem líkist semaglutide, betur þekkt sem Ozempic eða Wegovy.
„Það tók smá tíma að venjast því, sérstaklega vegna hægðatregðunnar, en eftir viku eða tvær var ég orðinn góður,“ segir hann.
Fyrsta árið missti hann tæp 90 kíló og var ekki lengur með sykursýki á forstigi.
Hann hélt áfram á lyfinu í eitt ár í viðbót en mánaðarlegur lyfjakostnaður var um 40 þúsund krónur. Sem eftirlaunaþegi sá hann ekki fram á að hafa áfram efni á meðferðinni og ákvað að hætta árið 2018. Matarlystin sneri strax aftur og með miklum krafti.
„Ég hafði lagt mikið á mig síðustu tvö árin og var staðráðinn að bæta ekki á mig aftur. En þyngdin kom smám saman aftur. Helmingur líkamsþyngdarinnar sem ég hafði misst á þessum tveimur árum kom til baka á sex mánuðum.“
Kane segir að þetta hafði mikil áhrif á hann andlega. „Ég er ekki maður sem verður þunglyndur, en þetta hafði mikil áhrif. Eftir hálft ár sagði konan mín: „Jesús, farðu aftur á þetta.“ Þannig við bitum í það súra epli að taka höggið fjárhagslega,“ segir hann og bætir við að það hafi hjálpað þegar semaglutide kom á markað með ódýrari verðmiða.
Kane hefur verið á þyngdarstjórnunarlyfjum nú í átta ár, tekur viðhaldsskammt einu sinni í viku og sér ekki fram á að hætta aftur.
Niðurstöður nýrrar langtímarannsóknar á vegum Oxford-háskóla sýna að það sé líklegt að einstaklingar sem hætta notkun á þyngdarstjórnunarlyfi, eins og Ozempic, muni þyngjast aftur, og hraðar en áður.
Susan Jebb, aðalhöfundur rannsóknarinnar, sagði:
„Þessi lyf eru mjög áhrifarík til þyngdartaps, en þyngdin kemur aftur mun hraðar til baka þegar þú hættir á lyfjunum, hraðar en eftir hefðbundna megrun. Við verðum að spyrja okkur hvort það sé þess virði fyrir NHS (breska heilbrigðiskerfið) að fjárfesta í þessum lyfjum ef fólk tekur þau aðeins í stuttan tíma og bætir svo öllu aftur á sig.“
Jebb lagði áherslu á að annað hvort þyrfti fólk að samþykkja að þetta væri ævilöng meðferð, það er, að það þyrfti að vera á lyfjunum alla ævi, eða að vísindasamfélagið þyrfti að þróa betri leiðir til að styðja fólk eftir að lyfjameðferð lýkur. „Við þurfum að hugsa mjög vel hvernig við getum stutt einstaklinga þegar þeir hætta á lyfinu.“