„Við vonum að þetta litla framtak okkar frá litla bænum okkar í afskekktum firði á Íslandi megi veita öðrum innblástur og gefa þeim þá von sem við þurfum öll á að halda,“ segir Diego Ragnar Angemi, meðlimur hópsins Queer Westfjords og íbúi á Ísafirði, þar sem aðaltorgið verður málað með trans fánalitum.
Vefurinn GayIceland fjallar um og segir að líta megi á framtakið sem lifandi tákn um þátttöku og von, á alþjóðlegum degi gegn hómófóbíu, tvífóbíu og transfóbíu, sem haldinn var laugardaginn 17. maí.
„Hugmyndin hefur almennt fengið góðar viðtökur meðal hópsins, það er sameiginlegur skilningur að innan LGBTQIA+ fjölskyldunnar sé transgender samfélagið það sem hefur fengið harkalegustu viðbrögðin að undanförnu,“ segir Diego.
Hann bætir við að þegar hópurinn hafi beðið bæjarstjórann á Ísafirði um leyfi og stuðning við nýja regnbogann hafi þeir fengið tafarlausan og skilyrðislausan stuðning. „Sem í hreinskilni sagt gerði okkur öll mjög ánægð og stolt af því að búa í þessum bæ.“
Hópurinn sem Diego vísar til, Queer Westfjords eða Hinsegin Vestfirðir, hópur hinsegin fólks sem býr á eða tengist Vestfjörðum, er skipulagður í gegnum Facebook hóp. Hópurinn sem telur 150 meðlimi hefur verið til í nokkur ár.
Undanfarin tvö ár hefur verið unnið að því að fá hugmyndina um að mála torgið samþykkta.
Er þetta í fyrsta skipti sem slíkt er gert á Ísafirði – hvað varðar sýnileika trans fólks?
„Já. Undanfarin þrjú ár höfum við alltaf málað „staðal“ sexlita regnbogann. En í ár ákváðum við að hafa sexlita regnbogann í upphafi og enda leiðarinnar, á meðan hann mun breytast í liti trans fánans.“
„Á síðasta ári sýndu kvikmyndahús víða um Ísland íslensku myndina Ljósvíkingar sem fjallar um trans konu (leikin af Örnu Magneu Danks) sem kemur út í sjávarþorpi – og það þorp er Ísafjörður og myndin var tekin upp hér,“ segir Diego.
„Einnig fyrir nokkrum árum var hlutverk Fjallkonu á þjóðhátíðardegi Íslendinga 17. júní, sem leiðir bæjargönguna og heldur opinbera ræðu, í höndum Veigu Grétarsdóttur, trans konu og ísfirðings,“ segir Diego.
En hvernig varð hugmyndin að trans regnboganum til?
„Við lifum á áhugaverðum tímum, vægast sagt. Víða um heim eru LGBTQIA+ réttindi að verða fyrir bakslagi og það er nokkuð ljóst að eitt samfélag í fjölskyldu okkar er fyrst og fremst skotmark sem aldrei fyrr: transfólks samfélagið. Það sem er að gerast með réttindi trans fólks í Bandaríkjunum, í Bretlandi með nýrri mismununarlöggjöf fyrir örfáum vikum síðan, og með ofbeldi á Íslandi, er óviðunandi,“ segir Diego.
„Þess vegna munum við í ár nota liti trans fánans til að endurmála regnbogann á Silfurtorgi, aðaltorgi Ísafjarðar. Þetta er táknræn en samt sjónrænt kröftug leið til að koma öllum saman í einu samfélagi, það sem er mest jaðarsett, það sem er trans fólk, og segja djarflega saman „trans réttindi eru líka réttindi okkar!“
Diego segir að það að mála regnbogann á aðaltorgi Ísafjarðar á alþjóðlegum degi gegn hómófóbíu, tvíkynhneigð og transfóbíu (IDAHOBIT), 17. maí, sé framtak sem er mikilvægt.
„Því nú sem aldrei fyrr þurfum við að finna von í mannkyninu, sem virðist hafa snúist í átt að hatri og kúgun,“ útskýrir hann. „Við vonum að þetta litla framtak okkar frá litla bænum okkar í afskekktum firði á Íslandi megi veita öðrum innblástur og gefa þeim þá von sem við þurfum öll.“