Á Íslandi er öllu snúið á hvolf, og raunar svo oft og mörgum sinnum, að venjulegum alþýðumanni finnst harla óljóst hvað snýr upp og niður í tilverunni. Félagsþjónustan er þessu marki brennd. Á meðan fátækasta fólkið í landinu berst við kerfið eins og Don Kíkóti við vindmyllurnar forðum daga, fær ríkasta prósent landsmanna að sitja að kjötkötlum sínum með ríkulegum afslætti, einn þjóðfélagshópa.
Nefnilega; íslenskt þjóðríki hjálpar þeim ríkustu mest. Og það er stórpólitísk ákvörðun fyrri ára.
Tölum norðlensku áður en lengra er haldið. Í fyrstu grein íslenskra fiskveiðistjórnarlaga er skýrt kveðið á um að nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Og segir þar nokkru síðar að úthlutun veiðiheimilda samkvæmt sömu lögum myndi ekki eignarétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.
Og takið eftir, lesendur góðir, að til að mynda sátt um þetta kerfi á sínum tíma voru fest í lög að rentan af auðlindinni væri útgerðinni ríkulega í hag; hún fengi 67 prósent hennar, en þjóðin, eigandi auðsins, hreppti 33 af hundraði.
Sátt? Sanngirni?
„Það er ekki nokkur einasti maður sem fer út í Byko og leigir sér borvél, þá takmörkuðu auðlind, sem kallar það skatt að fá tímabundin afnot af græjunni.“
Fyrir liggur að lengst af þessari öld hefur auðlindarentan sem þjóðin hefur fengið í sinn hlut verið á bilinu 16 til 18 prósent. Það merkir á mannamáli að enginn þjóðfélagshópur á Íslandi hefur fengið álíka afslátt af gjöldum sínum og stórútgerðin í landinu.
Og nú skal það leiðrétt, lögum samkvæmt, enda ber öllum, líka fátæka fólkinu í landinu, að standa skil á álögum sínum, og hefur hvorki heyrst kvein né væll úr þeirra hópi fyrir að standa skil á sínu.
En til að dreifa umræðunni hafa stórútgerðirnar og stjórnmálaflokkar þeirra á Alþingi stokkið upp til handa og fóta og kallað þetta skatta. Sér er nú hver hugmyndaauðgin. Því hér er verið að greiða gjald fyrir aðgang að auðlind, sem raunar er svo frádráttarbært frá skatti, sem er enn einn afslátturinn sem útgerðin þiggur af þjóðinni. Og hvaða kapítalismi er það eiginlega að vera að vola yfir markaðsvirði, og þurfa að hlíta lögmálum auðmagnsins. Það er ekki nokkur einasti maður sem fer út í Byko og leigir sér borvél, þá takmörkuðu auðlind, sem kallar það skatt að fá tímabundin afnot af græjunni. Hvað þá að leigjendur íbúða fái leiguna frádráttarbæra frá skatti. Enda er hún leiga, ekki skattur.
Látum vælutóninn vera. Og tölum af alvöru; ætli markaðsvirði kvótans nú um stundir sé ekki í námunda við 1200 milljarðar króna. Ríkissjóður er á sama tíma að innheimta um 9 milljarða á ári í veiðigjöld, sem svarar til 0,75 prósenta leigu af úthlutuðum auði, en það merkir að af 100 milljóna króna íbúð væri eigandinn að fá 75 þúsund krónur í leiguverð, sem hækkaði ekki að vísitölu.
Sátt? Sanngirni?
Og ekki er nú samræmið meira en svo að ríkið gerir 7,5 prósenta kröfu um arðsemi af Landsvirkjun sem fer með aðra helstu auðlind landsins. Ef sú sama krafa væri færð yfir á sjávarútveginn næmi það 90 milljörðum á ári, tífalt meira en ríkasta prósent landsmanna treystir sér til að borga í leigu af sjávarauðlindinni.
Þjóðin hefur verið svikin um gjald. Ef sá sem þetta skrifar svíkur undan skatti er hann dreginn til réttar og dæmdur. Og ber að borga það sem út af vantar. Með hæstu vöxtum. Skilyrðislaust.
En það sleppa sum sé sumir við það. Útvaldir og innmúraðir sem fyrr.
Og svo eru til stjórnmálaflokkar á Alþingi sem tala inn í þau 20 prósent landsmanna sem telja afsláttinn lífsnauðsynlegan. Þeir mega vel og lengi skipta þeim fimmtungi atkvæða á milli sín.