Erlendum ferðamönnum er brugðið eftir að hóteleigandi ruddist inn á herbergi til þeirra um miðja nótt. Segjast þau ekkert hafa sofið meira þessa nótt af ótta við að hann kæmi aftur. Fengu þau endurgreitt frá bókunarsíðunni vegna atviksins.
Ferðamaður greinir frá þessu í færslu á samfélagsmiðlinum Reddit og birti mynd af hóteleigandanum sem ruddist inn á gestina. Segist hann vilja vara aðra ferðamenn við.
Ferðamennirnir dvöldu á hótelinu, sem er staðsett í Keflavík, síðastliðinn mánudag, 12. maí og höfðu pantað herbergið í gegnum bókunarsíðuna Expedia. Þegar þeir mættu sáu þeir að ýmislegt var að herberginu.
„Viðhaldi á herberginu var ábótavant. Vaskurinn var stíflaður og kraninn á sturtunni var brotinn,“ segir ferðamaðurinn. Voru ferðalangarnir ósáttir við þetta og leituðu bæði til hótelsins sjálfs og Expedia til að fá lausn á málinu. En viðmótið var annað en þeir bjuggust við.
„Í kringum miðnætti kom maður inn á herbergið án þess að banka,“ segir ferðamaðurinn. „Hann sagðist vera eigandinn og sagðist hafa rétt til þess að koma inn á herbergið hvenær sem honum sýndist. Okkur fannst öryggi okkar verulega ógnað, sérstaklega þar sem það var ekki hægt að læsa hurðinni að innan. Við sváfum ekki meira þessa nótt, af ótta við að aftur yrði ruðst inn á okkur.“
Ferðamennirnir fengu herbergið endurgreitt hjá Expedia en segir að forsvarsmenn hótelsins hafi ekki sýnt neina iðrun eftir þetta.
„Í ljósi þess að Ísland hefur orðspor sem öruggt land þá var þessi reynsla einstaklega truflandi,“ segir ferðamaðurinn að lokum og mælir með því að fólk vandi sig við að panta hótel. „Verið varkár ef þið pantið gistingu þar sem gestir bóka sig sjálfir inn og ekkert starfsfólk er sjáanlegt.“
Eins og gefur að skilja eru margir hneykslaðir á þessari framkomu sem hótelgestunum var sýnd. Er ferðamönnunum ráðlagt að fara með málið lengra.
„Þetta væri nóg fyrir mig til þess að tilkynna málið til Ferðamálastofu og spyrja hvort þessi viðkomandi maður sé í raun eigandinn eða einhver brjálæðingur,“ segir einn í athugasemdum við færsluna. „Ég vona að ef hann er eigandinn þá hafi þetta einhverjar afleiðingar.
Annar spyr hvort ferðamennirnir hafi hringt á lögregluna og bendir á að hægt sé að gera það netleiðis, jafn vel þó viðkomandi sé farinn úr landi eins og ferðamennirnir í þessu tilfelli eru. Segist ferðamaðurinn enn þá vera að hugsa málið.