Það er flókið að vera moldríkur á Íslandi að sögn Þórðar Snæs Júlíussonar, framkvæmdastjóra þingflokks Samfylkingarinnar. Því meira sem fólk á af peningum því erfiðara finnst því að borga réttlátt gjald til samfélagsins.
Þetta skrifar Þórður Snær í grein sem birtist hjá Vísi í dag þar sem hann veltir fyrir sér viðbrögðum stórútgerðarinnar við leiðréttingu veiðigjalda. Fyrirsögn greinarinnar er: Það er flókið að eiga næstum 500 milljarða króna á Íslandi
„Skilaboðin sem stórútgerðin hefur sent í gegnum hagsmunagæsluarm sinn og talsmenn í stjórnmálum er að þrátt fyrir að eigið fé geirans sé sennilega komið yfir 500 milljarða króna, að það hafi hækkað um nálægt 200 milljörðum króna á síðustu sjö árum vegna hagnaðar sem var samtals 190 milljarðar króna á árunum 2021 til 2023 eftir fjárfestingu upp á 77 milljarða króna og arðgreiðslur upp á 63 milljarða króna, þá sé ekkert svigrúm til að borga meira. Það sé ekki nóg til.“
Þórður gluggaði nýlega í blað Frjálsrar verslunar um ríkustu Íslendingana frá árinu 2023. Þar vakti það athygli hans hversu margir á listanum höfðu auðgast með sambærilegum hætti.
„Með því að fá úthlutað kvóta frá ríkinu, kaupa svo meiri kvóta með því að veðsetja þann upprunalega í banka og hægt og rólega byggja upp stórveldi í sjávarútvegi, oft með þeim afleiðingum að kvóti var fluttur úr þorpum og bæjum í krafti stærðarhagkvæmni.“
Þannig hafi frændurnir Þorsteinn Már Baldvinsson og Kristján V. Vilhelmsson úr Samherjaveldinu endað í 2. og 3. sæti listans. Guðbjörg Matthíasdóttir og fjölskylda hennar voru svo í 5. sæti listans með auðinn sem fékkst í gegnum Ísfélagið. Á listanum mátti einnig finna Guðmund Kristjánsson, sem er gjarnan kenndur við Brim. Eins mátti á listanum finna Björk Aðalsteinsdóttur, dóttur Alla ríka, og eiginmann hennar Þorstein Kristjánsson. Þau eru aðaleigendur útgerðarfélagsins Eskju á Eskifirði.
Þórður rekur að Kaupfélag Skagfirðinga hafi ekki ratað á listann en félagið sker sig úr þar sem það er samvinnufélag í eigu rúmlega 1.300 félagsmanna. Ekki er um fjölskyldufyrirtæki að ræða. Eigið fé Kaupfélags Skagfirðinga hefur vaxið gríðarlega á síðustu árum.
„Það var 15,5 milljarðar króna árið 2010. Þegar árinu 2023 lauk var það metið á 58,6 milljarða króna. Stærsta ástæða þess er innreið Kaupfélagsins inn í sjávarútveg, enda er kvóti langverðmætasta bókfærða eign þess.“
Þórður rekur að hann hafi talið upp fjórar fjölskyldur og eitt kaupfélag sem árið 2023 áttu auð upp á að minnsta kosti 483,6 milljarða króna. Líklegt sé að þessi tala hafi vaxið hressilega síðan þá og sé þar að auki vanmetin þar sem kvótinn sé vanmetinn í bókum útgerða.
„Það er enginn vafi að leiðrétting veiðigjalda er að leggjast fyrst og síðast á eigendur þessara fyrirtækja. Hún er ekki að leggjast á sveitarfélög í viðkvæmri stöðu, ekki á fólkið sem vinnur í vinnslunni, ekki litlar og meðalstórar útgerðir.
Hún er að leggjast á þá allra stærstu, sem hafa hagnast ævintýralega á því að fá að nýta sameiginlega auðlind á síðustu árum og áratugum og á grunni þess keypt sig inn í flesta aðra anga íslensks samfélags.“
Þetta séu þeir aðilar sem eru að henda peningum í fordæmalausa auglýsingaherferð og þetta er fólkið sem stjórnarandstaðan á Alþingi er að verja.
„Það flóknasta við að eiga peninga virðist nefnilega vera að því meira sem þú átt af þeim, því erfiðara er að borga réttlátt gjald til samfélagsins.“