Stúlkan sem um ræðir heitir Luca de Groot og er búsett í Ástralíu. Hún þurfti að dvelja á sjúkrahúsi í sextán daga eftir að hafa bitið í þvottahylki frá framleiðandanum Persil.
Þvottaefnið sprautaðist í andlit og augu stúlkunnar og brást hún við með því að reyna að nudda efnið í burtu. Það gerði hins vegar illt verra og hlaut Luca slæm sár í andlitið.
Móðir hennar, Jodi, segir við ástralska fjölmiðla að dóttir hennar hafi viljað hjálpa henni með þvottinn þennan örlagaríka dag þann 16. mars síðastliðinn. Á meðan hún kom þvottinum fyrir í vélinni rétti hún dóttur sinni hylkið sem hún bað hana að geyma meðan hún setti í vélina.
Forvitnin virðist hafa borið stúlkuna ofurliði og beit hún í litríkt hylkið með þeim afleiðingum að þvottaefnið sprautaðist yfir andlit hennar. Jodi segir að hún hafi brugðist skjótt við og farið með dóttur sína undir sturtuna og freistað þess að skola á henni augun.
Luca emjaði um af sársauka og fór Jodi með dóttur sína á sjúkrahús þar sem hún var lögð inn sem fyrr segir. Var Luca nær alveg blind fyrstu dagana eftir slysið en sem betur fer hefur hún náð að endurheimta sjónina að stærstum hluta. Þurfti Luca meðal annars að gangast undir aðgerð á öðru auganu til að bjarga sjóninni.
Í viðtali við fjölmiðla segir Jodi að hylki utan um þvottaefni, svokallaðir þvottaefnispúðar, geti verið aðlaðandi í augum barna, vegna útlits og lyktar. Hvetur hún framleiðendur þessara efna til að gefa skýrar til kynna að það geti verið stórhættulegt að fá vökvann í augun.
„Á þessum umbúðum stóð til dæmis bara að maður ætti að leita ráðlegginga hjá heilbrigðisstarfsfólki,“ segir hún og bætir við að það hefði átt að standa: Leitið til læknis strax ef efnið berst í augun.
„Þetta þarf að vera skýrar. Ég áttaði mig ekki á því hversu alvarlegt þetta var. Manni dettur ekki allavega ekki í hug að bein snerting gæti þýtt alvarleg brunasár, þrjár aðgerðir og 16 daga á sjúkrahúsi.“