Þyngdaraukning er ekki alltaf afleiðing ofáts eða hreyfingarleysis. Margar daglegar venjur geta truflað efnaskipti líkamans, aukið löngunina í sætindi og lagt sitt af mörkum til fitusöfnunar án þess að þú vitir það eða takir eftir því.
Times of India segir að eftirtaldar daglegu venjur, sem valda því að fólk fitnar, séu þær sem fólki yfirsést oftast.
Að sleppa morgunmatnum – Ef þú sleppir því að borða morgunmat, þá getur það hægt á efnaskiptunum og valdið auknu hungri þegar líður á daginn. Þetta veldur því oft að fólk borðar of mikið, sérstaklega af mjög hitaeiningaríkum matvælum. Góður morgunmatur hjálpar líkamanum að koma jafnvægi á blóðsykurinn og kemur í veg fyrir löngun í óhollustu.
Að borða of hratt – „Ef þú borðar of hratt, þá fær heilinn ekki tíma til skrá mettunartilfinningu og það veldur ofáti,“ sagði Dr. Amit Garg, meltingafæraskurðlæknir og bætti við að það að tyggja matinn vel og borða hægt, geti bætt meltinguna og hjálpað fólki við að borða ekki of mikið.
Neysla sykurdrykkja – Gosdrykkir, kaffi með sykri og allskonar ávaxtasafar innihalda sykur sem eykur þar með hitaeininganeysluna. Þessi drykkir valda því að blóðsykurinn rís hratt en það stuðlar að fitusöfnun. Það er því snall leikur að skipta þessum drykkjum út með vatni, jurtatei eða svörtu kaffi því þessir drykkir hjálpa til við að hafa stjórn á þyngdinni.
Hugsanalaust nart – Ef þú borðar á meðan þú horfir á sjónvarpið eða notar símann, þá getur það orðið til þess að þú borðar of mikið því þú veitir því ekki athygli hversu mikið þú borðar. Þetta sagði Arunanshu Behera, skurðlæknir og bætti við að það sé mikilvægt að vera meðvitaður þegar maður borðar og skammta sér hóflega á diskinn.
Svefnskortur – Léleg svefngæði og of lítill svefn, trufla hormónana sem stýra hungurtilfinningunni. Þetta veldur aukinni löngun í óhollan mat. Svefnskortur hefur verið tengdur við aukna matarlyst og aukna hættu á ofþyngd. 7-9 klukkustunda gæðasvefn er afgerandi fyrir góð efnaskipti.
Krónískt stress – Mikið stress losar um kortísól, sem er hormón sem eykur matarlyst og stuðlar að fitusöfnun, sérstaklega við magann. Með því að takast á við stress með hreyfingu, hugleiðslu og afslöppunartækni er hægt að halda þyngdinni í góðu jafnvægi.