

Regína Ásvaldsdóttir hefur verið ráðin sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar en í ljósi þess að borgarráð samþykkti ráðninguna er ljóst að Akraneskaupstaður þarf að leita sér að nýjum bæjarstjóra. Regína hefur síðastliðin fjögur ár verið bæjarstjóri á Akranesi við góðan orðstír.
Vesturlandsblaðið Skessuhornið greindi frá því í janúar að Regína væri meðal þeirra ellefu sem sóttu um stöðuna hjá Reykjavíkurborg en frestur rann út 23. janúar. Í samtali við vef blaðsins sagði Regína að ástæðan fyrir því að hún sæktist eftir starfinu væri áhugi hennar á því, en hún væri ekki í atvinnuleit og líkaði vel í starfi bæjarstjóra. Hún hafði þó hugsað sér að söðla um í lok kjörtímabils, vorið 2018, sem helgaðist af fjölskylduhögum hennar.
Regína hefur áður starfað við ýmis stjórnunarstörf hjá Reykjavíkurborg, þar á meðal í velferðarþjónustu. Hún var álitin uppfylla best umsækjenda þær kröfur sem gerðar eru til sviðsstjóra. Ljóst er að ráðningin er áfall fyrir Skagamenn en fengur fyrir borgarbúa.