

Á bloggsíðu sinni fer Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, hörðum orðum um stefnu meirihluta borgarstjórnar í samgöngumálum og beinir sérstaklega spjótum að Hjálmari Sveinssyni. Fulltrúar meirihluta borgarstjórnar, undir formennsku Hjálmars, í umhverfis- og skipulagsráði felldu á dögunum tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að leita umsagnar Vegagerðarinnar, lögreglunnar, Samgöngustofu og samtaka sveitarfélaga áður en skýrsla starfshóps um lækkun umferðarhraða á götum borgarinnar vestan Kringlumýrarbrautar yrði tekin til afgreiðslu. Björn segir um þetta: „Hroki meirihlutans undir forystu Hjálmars Sveinssonar er í samræmi við annað sem frá honum kemur. Stefna hans um byggingar án bílastæða og götur án bíla er í ætt við ofríkisstefnur sem þola hvorki skoðun né umræður.“