

Sjö stuðningsmenn gríska knattspyrnufélagsins PAOK eru látnir eftir hörmulegt rútuslys sem varð í Rúmeníu á leið sinni á Evrópudeildarleik félagsins gegn Lyon. Þetta staðfesti gríska ríkisstjórnin í dag.
Stuðningsmennirnir voru á ferð í smárútu þegar slysið varð. Nokkrir slösuðust einnig og fá nú aðhlynningu á sjúkrahúsi.
Forsætisráðherra Grikklands, Kyriakos Mitsotakis, lýsti mikilli sorg sinni.
„Ég er sleginn yfir þessum hörmulega atburði sem kostaði sjö unga samlanda okkar lífið. Gríska ríkisstjórnin og sendiráð okkar eru í nánu samstarfi við yfirvöld og veita allan þann stuðning sem mögulegur er.“
Leikur Lyon og PAOK á samkvæmt áætlun að fara fram á fimmtudag.