
Paris Saint-Germain hefur gengið frá kaupum á 18 ára spænska miðjumanninum Dro Fernandez frá Barcelona. Samkvæmt spænskum fjölmiðlum greiddi PSG 8,2 milljónir evra fyrir leikmanninn. Forseti Barcelona er hissa á þessu.
„Þetta var óþægileg staða. Við höfðum sammælst um aðra lausn þegar hann yrði 18 ára, en umboðsmaður hans sagðist skyndilega ekki geta staðið við það,“ sagði Joan Laporta, en Börsungar sáu fyrir sér að endursemja við leikmanninn.
Fernandez gekk í La Masia-akademíuna árið 2022 og hefur spilað fimm leiki með aðalliðinu, þar á meðal í Meistaradeildinni. Hann hefur skrifað undir samning við PSG til ársins 2030.
„Þetta er mikill heiður. PSG er risastór klúbbur sem ég hef fylgst með frá barnæsku,“ sagði Fernandez, sem bætti við að ákvörðunin hefði verið ein sú erfiðasta á ferlinum.
PSG segir kaupin falla fullkomlega að stefnu félagsins um að byggja á ungum og efnilegum leikmönnum.