

Stuðningsmenn Manchester United hafa kallað eftir vantraustsyfirlýsingu á eigendur félagsins og gagnrýnt Sir Jim Ratcliffe harðlega. Mótmælahópurinn The 58, sem telur nær 100 þúsund meðlimi, hefur jafnframt boðað til mótmæla fyrir leik United gegn Fulham á Old Trafford 1. febrúar.
Óánægjan blossaði upp í kjölfar þess að félagið rak Ruben Amorim eftir aðeins 14 mánuði í starfi. Nú er talið að Ole Gunnar Solskjær og Michael Carrick keppi um að taka tímabundið við liðinu út tímabilið.
Talsmaður The 58 segir Ratcliffe hafa leitt félagið „frá einni hörmungunni til annarrar“ og að Manchester United sé orðið að félagi sem grín er gert að. Kalla þeir Ratcliffe sama trúðinn og Glazer fjölskylduna en þeir aðilar eiga félagið saman.
Hann gagnrýnir einnig yfirmann knattspyrnumála Jason Wilcox og framkvæmdastjórann Omar Berrada, sem hann segir skorta reynslu og sjálfstæða forystu. Samkvæmt hópnum hafi ágreiningur Wilcox og Amorim ráðið úrslitum um brottrekstur þjálfarans.
Í yfirlýsingu segir að félagið sé rekið af stjórnendum sem læra í starfinu á kostnað stöðugleika og trúverðugleika.
Þá er eigendahópurinn, þar á meðal Joel Glazer og Avram Glazer, sakaður um að draga fé úr félaginu án framtíðarsýnar.
The 58 hvetur stuðningsmenn til að fjölmenna í mótmælin og segir að ef ekki verði gripið til aðgerða sé hætta á að menning, sjálfsmynd og saga félagsins tapist.