Miðaverð á heimaleiki karlalandsliðs Íslands í haust verður flokkað eftir þeim andstæðingum sem íslenska liðið mætir. Þetta fékk 433.is staðfest frá KSÍ en sumir hafa orðið ringlaðir þegar þeir skoða málið.
KSÍ hefur selt 1800 mótsmiða fyrir undankeppni HM þar sem liðið mætir Aserbaídsjan á morgun og síðan eru leikir gegn Frökkum og Úkraínu síðar á þessu ári.
Þrír verðflokkar eru á miðum á leikina og gegn Aserbaídsjan kostar dýrasti miðinn 6.900 krónur. Verðið mun svo hækka á stökum miðum þegar líða tekur á keppnina.
KSÍ er ekki að fara neinar nýjar leiðir í svona verðlagningu og í enska boltanum eru miðar oftar en ekki flokkaðir eftir stærð leiksins.
433.is fékk ábendingu frá aðila sem taldi að KSÍ væri að rukka meira fyrir mótsmiða en staka leiki, svo er ekki og hefur KSÍ nú uppfært upplýsingar á vef sínum. Þegar aðeins verðlagningin gegn Aserbaídsjan er skoðuð héldu margir að stakir miðar muni á endanum reynast ódýrari. Svo er ekki.
Þannig mun dýrasti miðinn á leikinn gegn Úkraínu kosta 9.900 krónur og dýrasti miðinn gegn Frakklandi kosta 13.900 krónur. Loforð KSÍ um 20 prósenta afslátt á leikina sé keyptur mótsmiði stenst því alla skoðun.