Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Sviss
Þorsteinn Halldórsson telur fyrri hálfleik íslenska kvennalandsliðsins hafa verið slakan í fyrsta leik EM gegn Finnlandi í gær en var sáttur með þann seinni.
„Fyrri hálfleikur var ekki góður. Það var stress sem virkaði lamandi og í seinni hálfleik fannst mér við stíga upp. Fram að rauða spjaldinu fannst mér við vera að ná tökum á þessu.
Fyrstu mínúturnar eftir að við urðum manni færri þurftum við aðeins að ná áttum en mér fannst við frábærar eftir það og seinni hálfleikur heilt yfir góður,“ sagði Þorsteinn við 433.is á æfingasvæði Íslands í Thun í morgun.
Þorsteinn var spurður að því hvort að leikmenn hafi verið að fylgja hans uppleggi í gær, en illa gekk að tengja saman sendingar og halda í boltann í fyrri hálfleiknum.
„Það skiptir engu máli hvað þú leggur upp með ef sendingar eru endalaust að misheppnast, leikmenn eru hræddir. Þá mun það sem þú ætlar að gera aldrei ganga upp.“
Margir voru á því að finnska liðið væri viðráðanlegasti andstæðingurinn í riðli Íslands, sem inniheldur einnig Sviss og Noreg.
„Ég hef svosem ekki fylgst með umræðunni. Ég mat það svo að finnska liðið væri jafnvel erfiðasta liðið fyrir okkur að spila á móti. Þær eru góðar í ákveðnum hlutum og gera þá mjög vel. Ég vissi alveg að þetta yrði erfiðari leikur en fólk greinilega gerði sér grein fyrir.
Við þurfum bara að gleyma þessu. Þetta snýst um hvernig þú bregst við því að vera sleginn niður. Við ætlum að standa upp og sýna úr hverju við erum gerð,“ sagði Þorsteinn, en ítarlegt viðtal við hann er í spilaranum.