Sonur Cristiano Ronaldo, Cristiano yngri, lék sinn fyrsta unglingalandsleik fyrir hönd Portúgal gegn Japan í gær og fylgdust margir spenntir með.
Um var að ræða leik Portúgal og Japan á móti sem fram fer í Króatíu. Kom Cristiano yngri inn á í 4-1 sigri.
Samkvæmt fjölmiðlum í Króatíu voru fulltrúar frá stórliðum á svæðinu. Má þar nefna þýsku liðin Bayern Munchen, Dortmund, RB Leipzig og Hoffenheim, sem og ítölsku liðin Inter, Juventus og Atalanta, austurríska liðið RB Salzburg og enska stórliðið Tottenham.
Cristiano yngri leikur með yngri liðum Al-Nassr í Sádi-Arabíu, þar sem faðir hans er á mála. Hann er 14 ára gamall og verður spennandi að sjá hvort hann komist nálægt þeim hæðum sem faðir hans hefur náð á ferlinum.