Samkvæmt fjölmiðlum á Spáni skoðar Aston Villa þann möguleika að skipta um markvörð í sumar, taka Joan Garcia frá Espanyol og losa sig við Emi Martinez.
Heimsmeistarinn Martinez hefur verið lykilmaður hjá Villa síðan hann kom frá Arsenal 2020 en Unai Emery, stjóri Villa, er sagður ósáttur við frammistöðu hans á yfirstandandi leiktíð.
Vill Emery fá Garcia í búrið, en hann hefur einnig verið orðaður við Barcelona og Real Madrid, sem og Arsenal síðasta sumar.
Villa er að eiga flott tímabil. Liðið fór alla leið í 8-liða úrslit Meistaradeildarinnar, undanúrslit enska bikarsins og er að berjast um Meistaradeildarsæti í ensku úrvalsdeildinni.
Emery telur þó að markmannsstaðan sé eitthvað sem mætti bæta fyrir næstu leiktíð.