Liverpool vill fá Andrea Cambiaso frá Juventus í sumar, eftir því sem fram kemur í fjölmiðlum á Ítalíu.
Þessi 25 ára gamli bakvörður hefur verið á óskalista Manchester City í nokkra mánuði en nú er útlit fyrir að félagið fái samkeppni frá Liverpool. Það þykir að minnsta kosti nokkuð ljóst að Ítalinn fari frá Juventus.
Cambiaso er vinstri bakvörður að upplagi en getur einnig spilað hægra megin, en Liverpool er einmitt í leit að arftaka Trent Alexander-Arnold, sem að öllum líkindum er á leið til Real Madrid á frjálsri sölu.
Þá er einnig farið að hægjast vel á Andy Robertson, sem hefur verið vinstri bakvörður Liverpool í áraraðir, og gæti Cambiaso tekið hans stöðu.