

Magnús Már Einarsson, þjálfari karlaliðs Aftureldingar, mætti til Helga Fannars Sigurðssonar í nýjasta þætti af Íþróttavikunni hér á 433.is.
Afturelding féll úr Bestu deildinni sem nýliði í sumar en var í baráttunni um að halda sér uppi allt fram í lokaumferðina. Magnús var heilt yfir sáttur með sitt lið í sumar en jafntefli léku Mosfellinga grátt.
„Þetta var skemmtilegt og búið að vera markmið lengi að koma Aftureldingu í Bestu deildina. Mér fannst við gera margt mjög vel, við fengum 27 stig sem hefur nú yfirleitt dugað. Það sem drap okkur á endanum voru allt of mörg jafntefli, gerum níu jafntefli. Við áttum að sækja fleiri stig, tölfræðin og augað segja það. Það var kannski okkar klaupaskapur og reynsluleysi að gera það ekki,“ sagði Magnús.
Svakaleg stemning var í Mosfellsbæ fyrir liði Aftureldingar í sumar.
„Félagið er á góðum stað og liðið. Við getum spilað þarna uppi. Nú verðum við að taka eitt skref til baka og tvö áfram og verða enn betri. Miðað við stemninguna sem hefur myndast í kringum fótboltann í Mosfellsbæ viljum við komast aftur upp og festa Aftureldigu í sessi í Bestu deildinni á næstu árum.
Það er magnað hvað hefur gerst á undanförnum árum. Við höfum farið frá því að vera með fáa áhorfendur í að fylla áhorfendasvæðið og gott betur í hverjum einasta leik. Ég held að af 20 stærstu viðburðunum í bæjarfélaginu hafi verið tíu fótboltaleikir. Það voru ógleymanlegir leikir, eins og gegn KR og Víkingi, þar sem komust varla fleiri fyrir á vallarsvæðinu.“
Nánar í spilaranum.