

Fótboltasérfræðingurinn og hlaðvarpsstjarna Kristján Óli Sigurðsson var ekki par sáttur við Sky Lagoon eftir uppákomu á dögunum.
Kristján sagði frá því í hlaðvarpi sínu, Þungavigtinni, að hann hafi skellt sér í lónið en þar sem hann fékk sér lítinn bjór á leiðinni og hélt á honum tómum inn var honum meinað að nýta allan kvótann sinn þegar ofan í var komið.
„Ég gerði alvöru mistök þar. Þeir eru ekkert að grínast. Ég hélt á dósinni inn í Sky Lagoon og þá mátti ég bara fá tvo drykki í lóninu, því ég mætti með tóma dós,“ sagði hann.
Mikael Nikulásson, sem er með honum í hlaðvarpinu, spurði hann hvort hann hafi ekki snúið við. „Ég var búinn að borga 30 þúsund kall fyrir þetta rusl,“ sagði Kristján hins vegar.