
Viktor Bjarki Daðason er nú formlega orðinn fastur hluti af aðalliði FC Kaupmannahafnar, en félagið tilkynnti þetta í dag.
Viktor er aðeins 17 ára gamall og kom til FCK frá Fram í fyrra, en framherjinn hefur tekið miklum framförum í haust og orðinn fastamaður með aðalliðinu eftir að hafa heillað í akademíunni.
„Þetta er stór áfangi fyrir mig og markmið í sjálfu sér að komast í aðalliðshópinn. Þetta er eitthvað sem ég hef unnið hart að og dreymt um síðan ég kom til FCK,“ segir Viktor.
„Við erum að vinna með mjög hæfileikaríkan, ungan sóknarmann sem hefur tekið stór skref snemma á ferlinum,“ segir íþróttastjórinn Sune Smith-Nielsen meðal annars.