

Aaron Ramsey hefur greint frá því að mexíkóska félagið Pumas hafi rift samningi hans á sama tíma og fjölskylduhundur hans, Halo, hvarf í San Miguel de Allende.
Ramsey, sem er 34 ára gamall og fyrrverandi miðjumaður Arsenal og Juventus, fór til Mexíkó síðasta sumar. Komu hans var fagnað mikið í landinu, en dvölin reyndist að lokum mikil vonbrigði. Ramsey lék aðeins sex leiki fyrir Pumas áður en hundurinn hans hvarf af sveitabæ í október.
Fyrirliðinn í velska landsliðinu bauð 20 þúsund punda fundarlaun fyrir upplýsingar um ferðir Halo, en án árangurs. Í hjartnæmri færslu á Instagram skrifaði hann síðar: „Hvað ég myndi gera til að fá að halda utan um þig einu sinni enn.“
Í lok október var greint frá því að Ramsey hefði yfirgefið Pumas, og töldu margir að hann hefði sjálfur slitið samningnum til að snúa heim til Wales vegna aðstæðna fjölskyldunnar. Nú hefur hann hins vegar rofið þögnina og sagt að það hafi komið sér á óvart og valdið vonbrigðum að félagið skyldi sjálft rifta samningnum.
Í færslu á Instagram þakkaði Ramsey mexíkóska þjóðinni, þjálfurum og sérstaklega læknateyminu fyrir stuðninginn. Hann sagði sig hafa verið orðinn leikfær fyrir síðustu leiki tímabilsins og hlakkað til að gefa allt fyrir Pumas.