
Thiago Silva hefur verið orðaður við óvænta endurkomu í ensku úrvalsdeildina, en hann yfirgaf Chelsea í fyrra.
Brasilíski varnarmaðurinn, sem er orðinn 41 árs, lék fjögur tímabil með Chelsea og vann Meistaradeildina árið 2021 áður en samningur hans rann út.
Silva sneri þá heim til Brasilíu og gekk til liðs við Fluminense sumarið 2024 á tveggja ára samningi. Hann fer þó fyrr frá heimalandinu og er með HM vestan hafs í huga.
Samkvæmt brasilískum miðlum vill Silva snúa aftur til Evrópu, helst til Englands, þar sem börn hans eru enn í akademíu Chelsea.
Þar af leiðandi eru það helst Lundúnalið sem eru sögð líklegust til að fá hann, en West Ham, Fulham, Crystal Palace og Brentford eru nefnd sem helstu kostir.
Silva hefur einnig verið orðaður við sitt gamla félag á Ítalíu, AC Milan, sem og lið í Sádi-Arabíu og MLS-deildinni vestan hafs.