
Framherjinn Robert Lewandowski gæti verið á förum frá Barcelona í sumar og er sagður opinn fyrir því að ganga til liðs við MLS-liðið Chicago Fire á frjálsri sölu.
Samningur Pólverjans rennur út í lok tímabilsins og samkvæmt BBC hafa viðræður milli aðila verið jákvæðar.
Lewandowski, sem er 37 ára, hefur einnig verið orðaður við Inter Miami og mögulegt samstarf við Lionel Messi, en Chicago Fire virðist nú vera fremst í kapphlaupinu. Félagið er til í að greiða honum ansi vegleg laun.
Lewandowski gekk til liðs við Barcelona frá Bayern Munchen árið 2022 og hefur unnið La Liga, spænska bikarinn og ofurbikarinn auk þess að verða markakóngur deildarinnar tímabilið 2022–23.
Á þessu tímabili hefur hlutverk hans verið minna undir stjórn Hansi Flick og meiðsli hafa einnig sett strik í reikninginn, þó hann hafi samt skorað átta mörk í öllum keppnum.