

Stjórn Knattspyrnudeildar Vals hefur ráðið Hermann Hreiðarsson sem þjálfara meistaraflokks karla. Honum til aðstoðar verður Chris Brazell.
Unnið er að því að fullmanna þjálfarateymið sem verður kynnt á opnum félagsfundi ásamt kynningu á stefnumótunarvinnu sem stjórn knattspyrnudeildar hefur unnið að á þessu ári.
Boðað verður til fundarins áður en liðin koma aftur til æfinga í lok mánaðar.
Björn Steinar Jónsson, formaður knd. Vals:
„Það er mikið ánægjuefni að hafa náð að sannfæra Hermann um að koma til okkar í Val. Við lögðum áherslu á faglegt ferli og unnum þetta með nýráðnum tæknilegum ráðgjafa félagsins. Við erum að vinna eftir ákveðinni stefnu og hugmyndafræði og það var skýr niðurstaða og sannfæring okkar allra að Hermann sé rétti kosturinn til þess að leiða það verkefni. Við vitum hvað við höfum í Chris sem hefur verið hjá okkur núna heilt tímabil og staðið sig gríðarlega vel. Hermann hefur eiginleika sem við teljum okkur þurfa inn í það sem við erum að gera og ég er ekki í nokkrum vafa um að hann muni koma inn í félagið okkar af krafti.“
Hermann Hreiðarsson, þjálfari Vals:
„Þegar félag eins og Valur hefur samband er það auðvitað eitthvað sem kveikir áhuga. Ég fann það strax á samtölum mínum að það er samhljómur í þeirra framtíðarsýn og áherslum og þess sem ég vil standa fyrir. Hér er raunverulegur vilji til þess að gefa yngri leikmönnum stærra hlutverk og hugsa til framtíðar sem ég fíla. Á sama tíma ætlum við auðvitað að berjast um alla þessa titla enda er ég að taka við einu besta fótboltaliði landsins. Ég hlakka til að vinna með Chris og teyminu og mun auðvitað leggja áherslu á það sem ég stend fyrir. Ég get lofað fólki því að það verður gaman að horfa á Valsliðið undir minni stjórn og það er alveg á hreinu að það verður ekki þægilegt að spila á móti Val á meðan ég stýri liðinu.“