

Ítalski knattspyrnumaðurinn Umberto Catanzaro lést á mánudagsmorgun, aðeins 23 ára gamall, af völdum meiðsla sem hann hlaut eftir að hafa verið skotinn í Napólí þann 15. september. Catanzaro var skotinn fyrir mistök í hefndaraðgerð sem tengdist leka á kynlífsmyndbandi, að því er ítalskir fjölmiðlar greina frá.
Árásin var skipulögð af glæpaleiðtoga sem var æfur yfir því að kærasti dóttur hans, 17 ára piltur, hefði lekið myndbandi af henni. Leiðtoginn mætti í spænska hverfið í Napólí á stolinni skellinöðru ásamt 16 ára syni sínum og öðrum félaga.
Þegar þeir fundu 17 ára piltinn í bílnum skaut sonurinn tvisvar en hitti ekki. Í staðinn hæfðu skotin Catanzaro, sem sat í sama bíl og hafði enga aðkomu að deilunni.
Catanzaro náði að flýja að heimili tengdaföður síns sem flutti hann strax á Pellegrini-sjúkrahúsið. Þar var hann í gjörgæslu í um tvo mánuði áður en hann lést.
Lögreglan hefur handtekið fimm einstaklinga vegna árásarinnar, þar á meðal unga konu og tvo ólögráða einstaklinga.
Catanzaro hafði leikið í neðri deildum Ítalíu og getið sér gott orð, sér í lagi utan vallar.