

Landsliðsþjálfari Portúgals, Roberto Martínez, virðist hafa kennt Heimi Hallgrímssyni og Daru O’Shea um rauða spjaldið sem Cristiano Ronaldo fékk í leiknum gegn Írlandi á fimmtudagskvöldið.
Ronaldo var rekinn af velli eftir VAR-athugun þegar hann sló O’Shea í andlitið í teignum. Þetta var í þriðja skiptið í undankeppni HM á Aviva-leikvanginum sem andstæðingar Írlands klára leikinn manni færri, en bæði Ungverjaland og Armenía hafa áður fengið rauð spjöld þar.
Eftir leikinn tók Martínez upp hanskann fyrir fyrirliðann sinn og benti á ummæli Heimis fyrir leik, þegar hann sagði Ronaldo hafa „mikil áhrif á dómara“ í fyrri viðureign liðanna í Lissabon.
Martínez gagnrýndi einnig O’Shea og sagði: „Rauða spjaldið kom eftir atvik sem mér finnst harðneskjulegt. Þetta er fyrirliði sem hefur aldrei fengið rauða spjaldið í 226 landsleikjum. Hann var pirraður, hafði verið togað og ýtt í hann í 58 mínútur. Þetta leit verr út en það var, þetta var hreyfing á líkamanum, ekki olnbogi,“ sagði Martinez.
Þjálfarinn bætti við. „Það sem veldur mér vonbrigðum er að þjálfari Íra talaði um áhrif á dómara fyrir leik, og svo fellur stór miðvörður dramatískt í teignum.“