Landsliðsmaðurinn Logi Tómasson gekk í raðir tyrkneska efstu deildarliðsins Samsunspor í sumar og er afar sáttur með fyrstu mánuðina þar í landi.
Logi er kominn í lykilhlutverk hjá Samsunspor, en hann var keyptur þangað eftir að hafa vakið athygli með Stromsgodset í Noregi.
„Það er mikið mómentum í gangi hjá mér og ég er búinn að spila nánast allar mínútur. Ég er mjög glaður með það,“ sagði Logi í samtali við 433.is í tilefni að komandi landsleikjum Íslands gegn Frakklandi og Ítalíu.
Hann segir töluverðan mun á því að spila í Noregi og Tyrklandi.
„Ég myndi segja það. Þú finnur fyrir þessu öllu saman, stuðningsmennirnir eru kreisí og það er allt mun stærra. Menn eru stundum aðeins of blóðheitir fyrir minn smekk en ég er að venjast þessu,“ sagði Logi léttur.
Nánar er rætt við Loga í spilaranum, þar sem er einnig komið inn á landsleikina framundan.