

Fyrrverandi varnarmaður Barcelona, Dani Alves, hefur tekið að sér nýtt hlutverk eftir að nauðgunardómur hans var felldur úr gildi fyrr á þessu ári.
Alves, sem lék 408 leiki fyrir Barcelona á tveimur tímabilum og átti einnig farsælan feril hjá Juventus og Paris Saint-Germain, var upphaflega dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi í febrúar 2024 fyrir kynferðisbrot á næturklúbbi í Barcelona árið 2022.
Hann hafði þá verið leikmaður Pumas UNAM í Mexíkó, en félagið rifti samning hans þegar málið kom upp.
Í mars sama ár var Alves sleppt úr haldi gegn tryggingu, eftir að dómnum var áfrýjað og málið tekið upp að nýju. Dómstóll í Katalóníu komst síðar að þeirri niðurstöðu að málið hefði innihaldið misræmi og ósamræmi í frásögnum og því var dómnum breytt.
42 ára gamall hefur Alves nú snúið sér að því að predika trú sína. Á Instagram, þar sem hann er með yfir 30 milljón fylgjendur, lýsir hann sér sem lærisveini Jesú Krists og birtir reglulega biblíutilvitnanir.
Hann tók nýverið þátt í unglingaráðstefnu Elim-kirkjunnar í Girona, þar sem hann sást syngja, biðja og predika á sviði.
„Hafið trú á Guði, ég er lifandi sönnun þess,“ sagði Alves í ávarpi sínu. „Í miðjum stormi leiddi Guð mig að kirkjunni og þessari vegferð. Ég lofaði að þjóna honum og það geri ég nú.“
Á meðan á fangelsisvistinni stóð skildu leiðir hans og eiginkonu hans Joönu Sanz, en parið hefur nú tekið saman á ný og flutt saman aftur í heimili sitt í Esplugues de Llobregat.
Joana fæddi nýlega barn þeirra.