

Dramatísk vending átti sér stað hjá Celtic á mánudag þegar Brendan Rodgers sagði starfi sínu lausu og aðeins 15 mínútum eftir að félagið þakkaði honum fyrir störf hans, birti aðaleigandi félagsins, Dermot Desmond, harðorða yfirlýsingu þar sem hann sakaði Rodgers um ósannindi, sundrung og sjálfselska hegðun á síðustu mánuðum sínum í starfi.
Rodgers sagði af sér eftir slæma byrjun á tímabilinu þar sem Celtic situr á eftir Hearts um átta stig í skosku úrvalsdeildinni. Í fyrstu tilkynningu félagsins var þakkað fyrir framlag hans á tímum velgengni, en yfirlýsing Desmonds dró upp allt aðra mynd.
„Ég vil þakka Brendan fyrir hans framlag á tveimur tímabilum hjá félaginu,“ sagði Desmond. „En ég verð einnig að lýsa yfir miklum vonbrigðum með hvernig síðustu mánuðir hafa þróast.“
Desmond segir að Rodgers hafi hafnað framleningu á samningi sem honum var boðin í sumar og síðar ranglega gefið í skyn að félagið hefði ekki sýnt honum stuðning. „Það var einfaldlega ósatt,“ segir hann.
„Allar leikmannasölur og kaup voru gerð með samþykki hans. Hann hafði síðasta orðið í öllum fótboltatengdum ákvörðunum. Þegar hann svo fór að gagnrýna félagið opinberlega komu þær yfirlýsingar okkur algjörlega í opna skjöldu.“
Desmond segir að hann hafi átt þriggja tíma fund með Rodgers þar sem hann gat ekki nefnt eitt dæmi um að félagið hefði brugðist honum. „Orð hans og gjörðir urðu síðar sundrandi, villandi og sjálfselskar. Þær stuðluðu að eitruðu andrúmslofti og óréttlátum árásum á stjórn og starfsfólk.“
Desmond lauk yfirlýsingu sinni á því að minna á að Celtic sé stærra en nokkur einstaklingur og að félagið muni nú snúa sér að því að endurreisa einingu og styrkja liðið.
Martin O’Neill og Shaun Maloney taka við stjórn liðsins tímabundið.