
Samkvæmt fréttum frá Ítalíu er Ange Postecoglou meðal þeirra sem Juventus skoðar sem mögulegan nýjan stjóra liðsins.
Postecoglou var nýverið rekinn frá Nottingham Forest eftir einungis 39 daga í starfi. Á þeim tíma tókst Ástralanum ekki að vinna leik með Forest, sem hann tók við í síðasta mánuði.
Áður hafði hann stýrt Tottenham til sigurs í Evrópudeildinni á síðasta tímabili, en missti starfið eftir að liðið endaði í 17. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.
Postecoglou er sagður á fimm manna lista Juventus til að taka við af Igor Tudor, sem er undir mikilli pressu eftir dapra byrjun á tímabilinu. Juve hefur ekki unnið leik síðan í 4-3 sigri á Inter 13. september og liðið hefur ekki enn sigrað í Meistaradeildinni.
Aðrir sem eru sagðir á listanum eru Roberto Mancini, Raffaele Palladino, Luciano Spalletti og Edin Terzic.
Postecoglou hefur einnig verið orðaður við Celtic. Hann stýrði skoska liðinu á árunum 2021–2023 og vann fimm titla, þar á meðal tvo Skotlandsmeistaratitla.
Brendan Rodgers er núverandi stjóri Celtic, sem er fimm stigum á eftir toppliði Hearts í skosku úrvalsdeildinni.