„Það er sérstök og svolítið skrýtin tilfinning að skrifa þetta,“ skrifar Matthías Vilhjálmsson sóknarmaður Víkings sem ætlar að leggja skóna á hilluna á laugardag.
Matthías er 38 ára gamall en hann hefur spilað með Víkingi síðustu ár ferilsins, áður lék hann með FH og BÍ hér á landi.
Matthías átti mörg góð ár í atvinnumennsku en hann varð meðal annars norskur meistari í fjórgang með Rosenborg.
„Leikurinn á laugardaginn verður minn síðasti leikur á ferlinum þar sem að eftir meira en 20 ár í meistaraflokksfótbolta hef ég ákveðið að leggja skóna á hilluna. Í rauninni hefur fótboltinn verið líf mitt síðan ég var barn á Ísafirði. Hann hefur kennt mér svo margt sem nýtist í lífinu sjálfu – vinnusemi, aga, auðmýkt og það að gefast aldrei upp,“ skrifar Matthías.
Matthías lék á ferli sínum 15 A-landsleiki og þá hefur hann fimm sinnum orðið Íslandsmeistari, þrisvar með FH og tvisvar með Víking.
„Ég gaf nánast allt sem ég átti í hverja einustu æfingu og leik, og kannski er það ástæðan fyrir því að ég náði að endast svona lengi og afreka svona góða hluti. Fótboltinn hefur gefið mér vináttu til lífstíðar og minningar sem ég mun aldrei gleyma.“
Matthías gengur stoltur frá borði. „Ég er ákaflega stoltur af mínum ferli – en fyrst og fremst þakklátur. Þakklátur fyrir fjölskylduna sem hefur staðið við hliðina á mér í öllu, fyrir liðsfélagana, þjálfarana, stuðningsmennina, allt fólkið sem hefur verið hluti af þessari vegferð – og öll liðin sem ég hef verið svo heppinn að spila með,“ skrifar Matthías.