Höskuldur Gunnlaugsson fyrirliði Breiðabliks segir að það hafi verið töluverð viðbrigði að frétta af brottrekstri Halldórs Árnasonar úr starfi þjálfara. Hann lítur aftur á tímann með Halldór við stjórnvölinn jákvæðum augum.
Halldór, sem áður var aðstoðarmaður Óskars Hrafns Þorvaldssonar, gerði Blika að Íslandsmeisturum á fyrsta tímabili sínu sem aðalþjálfari í fyrra og kom liðinu í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar. Gengið í Bestu deildinni hefur þó ekki verið nógu gott.
„Þetta var smá sjokk og viðbrigði, með skömmum fyrirvara. Á sama tíma er stutt í næsta leik og mér finnst einbeitingin í hópnum klárlega á leiknum á morgun. Við hofum horft í þennan leik í langan tíma og akkúrat núna er þetta spurning um að knýja fram stemningu, frammistöðu og láta úrslitin fylgja með,“ segir Höskuldur, en Blikar mæta KuPS frá Finnlandi í Sambandsdeildinni á morgun.
Höskuldur er búinn að eiga gott spjall við Halldór frá því tíðindin bárust um brottrekstur hans á mánudag.
„Að sjálfsögðu, við erum búnir að taka gott spjall. Þetta voru sex ár af geggjuðu samstarfi. Karlamegin í Breiðabliki hefur ekki verið mikið um titla svo þetta hefur verið stórkostlegur tími, hlutlægt mat. Fyrir utan að vera frábær þjálfari er hann geggjaður gaur.“
Viðtalið við Höskuld er í spilaranum, en þar er einnig rætt um leikinn á morgun.