Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, fyrrum knattspyrnukona og þjálfari, var gestur Helga Fannars Sigurðssonar í Íþróttavikunni á 433.is.
Það var til að mynda komið inn á komandi leiki íslenska kvennalandsliðsins gegn Norður-Írum í Þjóðadeildinni, en það verða þeir fyrstu eftir að Ólafur Kristjánsson var ráðinn aðstoðarþjálfari Þorsteins Halldórssonar.
Ólafur hefur komið með krafti inn í íslenska kvennaknattspyrnu sem þjálfari Þróttar undanfarin tvö ár og telur Ásgerður að hann muni reynast KSÍ vel.
„Þetta eru tveir aðalþjálfarar, Óli er ekki aðstoðarþjálfari. Hann hefur komið inn af krafti í Þrótt og ég fagna því gríðarlega að fá hann ekki aðeins í A-landsliðið heldur knattspyrnusambandið líka.
Hann mun hjálpa yngri landsliðsþjálfurum líka. Það eru tveir nýir þjálfarar þar, Donni núna og Aldís í fyrra, og þau gætu ekki fengið betri læriföður í sínum fyrstu skrefum í knattspyrnusambandinu. Mér finnst líka vel gert hjá Steina að taka svona sterkan þjálfara með sér,“ sagði hún.
Þátturinn í heild er í spilaranum.