Cristiano Ronaldo segir að hann sé ekki tilbúinn að leggja skóna á hilluna þrátt fyrir að fjölskyldan hafi hvatt hann til þess.
Ronaldo, sem er orðinn 40 ára, heldur áfram að láta til sín taka bæði hjá Al-Nassr og portúgalska landsliðinu. Hann skoraði 35 mörk fyrir félagið sitt á síðasta tímabili og hjálpaði Portúgal að vinna Þjóðadeildina í sumar.
Framherjinn segist enn hafa hungur í að skora og vinna titla og ætlar sér að leiða Portúgal inn í HM á næsta ári.
„Fólk í kringum mig, sérstaklega fjölskylda mín, segir að þetta sé orðið gott því ég hef gert allt. Af hverju viltu skora þúsund mörk? En ég hugsa ekki þannig,“ segir Ronaldo.
„Ég er enn að skila góðu framlagi, hjálpa bæði félaginu mínu og landsliðinu. Af hverju ætti ég að hætta? Ég veit að ég á ekki mörg ár eftir, en ég mun njóta þeirra til fulls.“
Ronaldo hefur nú skorað 946 mörk á ferlinum í félags- og landsliðsbolta og stefnir að því að verða fyrsti leikmaðurinn til að ná þúsund mörkum.
Hann skrifaði undir nýjan samning við Al-Nassr í sumar.