Það gengur erfiðlega hjá fyrrum varnarmanni Manchester City, Benjamin Mendy, sem er orðinn atvinnulaus á ný.
Mendy er 31 árs gamall en hann hefur lítið spilað af fótbolta undanfarin ár eftir sex ára dvöl hjá City.
Mendy var lengi undir rannsókn vegna ákæru um nauðgun en eftir að hafa fengið sýknun samdi hann við Lorient í Frakklandi 2023.
Hann spilaði aðeins 15 leiki fyrir það félag og var í kjölfarið fenginn til Sviss þar sem hann samdi við Zurich.
Stjórn Zurich var ekki hrifin af hegðun Mendy utan vallar og var hann látinn fara eftir aðeins átta leiki sem voru spilaðir á um fimm mánuðum.
Hann samdi við félagið í febrúar og til ársins 2026 en þeim samningi var rift í gær.
Ástæðan er hegðun leikmannsins utan vallar en hann ku hafa verið duglegur að skella sér út á lífið og var líkamlegt stand hans alls ekki nógu gott.
Frakkinn var ákærður fyrir sjö nauðganir árið 2021 en er í dag að reyna að koma ferlinum aftur af stað.