Þó nokkur áhugi er á markverðinum Gianluigi Donnarumma, nú þegar aðeins ár er eftir af samningi hans við Paris Saint-Germain.
Þetta kemur fram í fjölmiðlum í heimalandi kappans, Ítalíu, en þar hafa bæði Inter og Juventus áhuga. Fyrrnefnda félagið er sagt til í að bjóða honum myndarlegan launapakka ef hann kemur frítt eftir ár. Juventus er til í að greiða fyrir að fá hann strax í sumar.
Þá er Manchester City einnig sagt horfa til Donnarumma, en félagið leitar að langtímaarftaka Ederson. Loks hefur Bayern Munchen einnig áhuga.
Donnarumma er að eiga frábært tímabil með PSG. Hann á stóran þátt í að liðið er komið alla leið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.
Sjálfur hefur hann sagst vilja vera áfram hjá félaginu, en til þess þurfa báðir aðilar að ná samningum.