Það eru góðar líkur á því að Miguel Almiron yfirgefi Newcastle og haldi aftur til Bandaríkjanna. Frá þessu greinir miðillinn Goal.
Hinn þrítugi Almiron hefur fallið aftar í goggunarröðina hjá Newcastle og gætu dagar hans senn orðið taldir.
Charlotte FC í Bandaríkjunum hefur mikinn áhuga á að fá Almiron, en félagið reyndi einnig við hann í sumar. Þá vildi Newcastle hins vegar um 16 milljónir punda fyrir leikmanninn, um tvöfalt meira en Charlotte var til í að borga.
Það eru líkur á að Newcastle sé nú til í að sleppa honum ef marka má nýjustu fréttir.
Almiron hefur verið á mála hjá Newcastle í nær fimm ár, en hann gekk í raðir félagsins frá bandaríska liðinu Atlanta United.