Pep Guardiola ætlar ekki að þjálfa annað félagslið eftir Manchester City að eigin sögn.
Spánverjinn hefur, eins og flestir vita, náð ótrúlegum árangri sem stjóri City frá því hann tók við 2016. Þar áður gerði hann garðinn frægan með Barcelona og Bayern Munchen.
Nýverið skrifaði Guardiola undir framlengingu á samningi sínum við City til 2027 en þegar hann yfirgefur Etihad mun hann ekki fara í annað félagslið.
„Ég mun ekki fara í annað félag eftir City. Ég ætla ekki að fara í annað land og gera það sem ég er að gera núna,“ segir Guardiola.
„Kannski mun ég þjálfa landslið, það er öðruvísi,“ bætti hann við.
City, sem hefur unnið ensku úrvalsdeildina fjögur ár í röð, hefur verið í miklu brasi í deildinni undanfarnar vikur.