15 ára strákur varð fyrir miklum vonbrigðum í gær er leik Everton og Liverpool var frestað í ensku úrvalsdeildinni.
Ástæðan var stormurinn Darragh sem lét til sín taka í gær en flauta átti til leiks klukkan 12:30 um hádegi.
Guardian ræddi við strák sem ber nafnið Mackenzie Kinsella en hann er mikill stuðningsmaður Everton og býr í Ástralíu.
Guardian segir að strákurinn hafi eytt öllum peningum sínum í 30 tíma ferðalag sem á að hafa kostað um 2,6 milljónir króna.
Mackenzie hefur verið á Englandi í rúmlega viku en hann sá sína menn vinna 4-0 sigur á Wolves á miðvikudaginn.
Draumurinn var hins vegar að mæta á leikinn við Liverpool sem verður síðasti grannaslagur liðanna á Goodison Park.
Móðir stráksins ræddi við Guardian og tekur fram að hann sé miður sín yfir niðurstöðunni.
,,Hann sagði að það væri hans draumur að mæta á leik Everton og Liverpool á Goodison Park,“ sagði móðirin Rita.
,,Hann safnaði fyrir ferðinni, notaði sparisjóðinn og spurði að lokum hvort hann mætti fara. Ég sagðist ekki geta stöðvað hann ef hann hefði efni á ferðinni.“
Því miður fyrir Mackenzie þá var leiknum frestað og er óvíst hvenær viðureignin mun fara fram.