Sparkspekingurinn og hlaðvarpsstjarnan Mikael Nikulásson var gestur Helga Fannars Sigurðssonar og Hrafnkels Freys Ágústssonar í Íþróttavikunni þetta skiptið.
Það var til að mynda rætt um tíð Mikaels með KFA í 2. deild karla, en hann var látinn fara þaðan í byrjun ágúst er liðið var í 3. sæti.
„Á endanum var ákvörðunin ekki sameiginleg. Það er eitthvað sem ég veit ekki. Mig langar svolítið að vita það, hvað gerði útslagið,“ sagði Mikael í þættinum.
„Það var farið að leita að einhverjum öðrum hlutum nokkrum klukkutímum eftir þennan fræga leik (3-1 tap) á móti Reyni/Sandgerði. Þegar svoleiðis gerist, þá er eitthvað búið að liggja undir. Það var alveg klárt því ekki var það árangur liðsins, hvorki 2023 eða 2024.“
Gengi KFA versnaði eftir að Mikael fór og hafnaði liðið að lokum í 5. sæti 2. deildar, 8 stigum frá 2. sæti sem tryggir þátttökurétt í Lengjudeildinni.
„Ég er nokkuð viss um að ef ég hefði verið þarna áfram hefði KFA-Völsungur í lokaumferðinni verið úrslitaleikur um að fara upp,“ sagði Mikael.
„Í fyrsta sinn á mínum þjálfaraferli tapaði ég þremur leikjum í röð. En tveir af þeim voru á móti Selfoss og Víking Ó. í 50/50 leikjum. Ef menn fengju alltaf reisupassann fyrir það væru félög með 40-50 þjálfara á hverju einasta ári.“
Mikael segist kominn yfir viðskilnaðinn við KFA en það sem situr í honum er að hafa ekki komið liðinu upp í fyrra. Hann var hársbreidd frá því.
„Við vorum með besta liðið, með betra lið en ÍR. Við klúðruðum þessu sjálfir með unnið mót. Þá hefðu flestir haldið áfram og það lið hefði farið í umspilið í 1. deildinni í sumar.“
Umræðan í heild er í spilaranum.
Íþróttavikan er í boði Bola léttöl og Lengjunnar