Albert Guðmundsson vildi ekki mæta til móts við landsliðið fyrir leikinn gegn Tyrkjum á morgun. Frá þessu sagði Age Hareide landsliðsþjálfari Íslands í gær.
Albert var sýknaður af ákæru um kynferðisbrot á fimmtudag, degi fyrir leikinn gegn Wales.
Hann hafði ekki tök á því að mæta í þann leik, Hareide segir að KSÍ hafi haft samband við Albert og haft áhuga á að fá hann inn. Albert vildi hins vegar fá frí.
Rætt var um þetta í hlaðvarpinu Dr. Football í dag og spurði Hjörvar Hafliðason gesti sína hvort þetta væri ekki eðlilegt.
„100 prósent, auðvitað vissi hann ekki hvað var í vændum. Hefur legið þungt á honum, hann þurfti tíma fyrir sig,“ sagði Jóhann Már Helgasonum málið.
Hjörvar segist hafa fylgst með umræðunni um helgina í kringum Albert og lið sem skoðuðu að kaupa hann í sumar sjá á eftir honum.
„Stuðningsmenn Inter voru fúlir að hafa misst af honum, stuðningsmenn Tottenham voru að detta inn líka í umræðuna. Hann skoraði sigurmarkið gegn AC Milan um síðustu helgi, Ítalir setja tilfinningar í þetta,“ segir Hjörvar en Albert gekk í raðir Fiorentina í sumar.
„Maður sér hvað Albert er vinsæll þarna úti, þú þarft svo bara tvo lélega leiki og tvö töp,“ sagði Hjörvar en Albert hefur farið frábærlega af stað með nýju félagi.