Tottenham hefur áhuga á að fá Callum Hudson-Odoi, leikmann Nottingham Forest, til liðs við sig í sumar.
Guardian segir frá þessu en þar kemur fram að Ange Postecoglou, stjóri Tottenham, vilji styrkja lið sitt framar á vellinum.
Horfir félagið því til Hudson-Odoi, sem gekk í raðir Forest frá Chelsea fyrir leiktíðina sem er að klárast.
Miklar vonir voru bundnar við hinn 23 ára gamla Hudson-Odoi á yngri árum, er hann var á mála hjá Chelsea. Bayern Munchen sýndi honum til að mynda mikinn áhuga.
Kantmaðurinn stóðst þessar væntingar ekki en átti hins vegar ágætis leiktíð með Forest, þar sem hann skoraði átta mörk í ensku úrvaldeildinni.
Hudson-Odoi er metinn á tæpar 13 milljónir punda samkvæmt Transfermarkt og er hann samningsbundinn Forest til 2026.