Jóhann Berg Guðmundsson leikur sinn síðasta leik fyrir Burnley á morgun þegar liðið mætir Nottingham Forest. Jóhann kveður félagið eftir átta ár.
Jóhann var keyptur til Burnley frá Charlton sumarið 2016 en Burnley voru þá nýliðar í ensku úrvalsdeildinni.
Á þeim átta árum sem Jóhann hefur spilað fyrir Burnley hefur hann verið í sjö ár í ensku úrvalsdeildinni.
Samkvæmt heimildum 433.is stóð Jóhanni til boða að gera nýjan samning við Burnley sem hann afþakkaði. Hann róar því á ný mið en Jóhann er 33 ára gamall.
Jóhann er stoðsendingahæsti leikmaður í sögu Burnley í ensku úrvalsdeildinni og mun sagan líklega dæma hann sem einn besta leikmanninn í sögu félagsins.
Burnley er fallið úr ensku úrvalsdeildinni en Jóhann kveður félagið á Turf Moor á morgun.