Jóhannes Karl Guðjónsson hefur hefur óskað eftir því að láta störfum sem aðstoðarþjálfari A landsliðs karla og mun hann taka við þjálfun liðs AB í Danmörku.
AB leikur í þriðju efstu deild Danmörku en Ágúst Eðvald Hlynsson er leikmaður liðsins.
Jóhannes Karl lætur af störfum frá og með deginum í dag og verður því ekki með A landsliði karla í næsta verkefni liðsins, sem eru tveir vináttuleikir ytra í næsta mánuði – gegn Englandi 7. júní í London og gegn Hollandi 10. júní í Rotterdam.
Stefnt er að því að ganga frá ráðningu á nýjum aðstoðarþjálfara landsliðsins sem allra fyrst.
Skagamaðurinn Jóhannes Karl var ráðinn aðstoðarþjálfari A landsliðs karla í janúar 2022. Þjálfaraferilinn hóf hann hjá HK árið 2016 og var þar við stjórnvölinn þar til hann sneri heim á Skagann árið 2018 og tók við liði ÍA, sem hann stýrði þar til hann hóf störf með landsliðinu.