Kylian Mbappe mun ekki fá næstum eins há laun hjá liði Real Madrid er hann yfirgefur lið Paris Saint-Germain í sumar.
Frá þessu greinir spænski miðillinn AS en allar líkur eru á að Mbappe sé búinn að gera samning við spænska stórliðið.
Mbappe hefur lengi raðað inn mörkum fyrir PSG og er talinn hafa þénað um 1,2 milljónir punda á viku hjá félaginu.
Frakkinn hefur staðfest það að hann sé á förum í sumar en hjá Real mun hann þéna 404 þúsund pund á viku samkvæmt AS.
Þrátt fyrir þessa gríðarlegu launalækkun þá verður Mbappe launahæsti leikmaður Real en hann er talinn vera einn besti leikmaður heims.