Emmanuel Petit, fyrrum leikmaður Chelsea og Arsenal, hefur sent skýr skilaboð á goðsögnina Roy Keane sem lék lengi með Manchester United.
Keane hefur gagnrýnt framherjann Erling Haaland þónokkrum sinnum í vetur en hann þekkir til föður leikmannsins, Alf Inge Haaland, sem spilaði til að mynda með Leeds.
Keane var aldrei neinn aðdáandi Alf Inge og hefur nú verið duglegur að gagnrýna son hans sem spilar með Manchester City.
Keane sagði á meðal annars að Erling væri jafn góður og framherji í fjórðu efstu deild Englands þrátt fyrir að hann hafi bætt markamet efstu deildar í fyrra.
,,Auðvitað andar köldu þar á milli, þetta tengist því sem gerðist á milli Keane og föður Haaland eftir fótbrotið,“ sagði Petit.
,,Ég held að Keane sjái alls ekki eftir því sem hann gerði og hann myndi gera það sama aftur ef tækifærið væri til staðare. Hann er hins vegar að ganga of langt með gagnrýni sinni á Erling.“
,,Hann er að fara langt yfir strikið og er að skapa neikvæða orku, hann er alltaf að gagnrýna hann. Hann þarf að horfa í aðra átt og vonandi fyrirgefur hann föður leikmannsins. Ekki láta soninn borga fyrir fortíðina.“