Fram er með þrjú stig eftir tvær umferðir í Bestu deild karla. Liðið var til umræðu í hlaðvarpi Íþróttavikunnar, þar sem farið var yfir leikina í Bestu deildinni.
Lærisveinar Rúnars Kristinssonar, sem tók við í haust, unnu Vestra í fyrsta leik en töpuðu svo 0-1 gegn Víkingi. Má segja að þeir hafi verið ansi óheppnir í þeim leik og stór dómur féll gegn þeim, þar sem löglegt mark var dæmt af.
„Þó Fram hafi ekki unnið fannst manni spilamennska þeirra á köflum mjög góð og það sem Rúnar hefur verið að leggja áherslu á, varnarleikurinn, er að skila sér. Þetta er eitt mark fengið á sig í fyrstu tveimur leikjunum og þeir eru bara þéttir til baka,“ sagði Hörður Snævar Jónsson í þættinum.
Helgi Fannar Sigurðsson tók í svipaðan streng.
„Rúnari til hróss virðist liðið algjörlega tilbúið, þó það séu bara búnir tveir alvöru leikir. Frammistaðan á móti Vestra var mjög þroskuð. Þetta var klárlega Bestu deildarlið á móti nýliða. Og frammistaðan á móti Víkingi var mjög frambærileg og hefði dugað á móti mörgum liðum. Fram hefur heillað mann í þessum fyrstu tveimur leikjum.“