Daníel Leó Grétarsson, miðvörður íslenska landsliðsins, átti arfaslakan fyrri hálfleik gegn Ísrael í undanúrslitum umspils um sæti á EM á fimmtudag. Hann var þó töluvert betri í þeim seinni.
Ísland vann leikinn 4-1 og mætir Úkraínu í hreinum úrslitaleik um sæti á EM á þriðjudag.
„Hann var alveg meðvitaður um að umræðan væri um að hann væri í byrjunarliði. Hann var svakalega stressaður og með hverjum mistökunum sem hann gerir verður hann minni og minni í sér. Það kom mér á óvart að hann kæmi út í seinni hálfleik,“ sagði Helgi Fannar Sigurðsson í hlaðvarpi Íþróttavikunnar, en það kom mörgum á óvart að Daníel skyldi byrja leikinn.
„Hann á þennan hauskúpu fyrri hálfleik en honum til hróss sökk hann ekki dýpra og náði aðeins að stíga upp. Hann á bara þokkalegasta seinni hálfleik, sem er merki um að það er karakter í þessum gæa. Hann brotnaði ekki niður þrátt fyrir allar þessar feilsendingar og þetta klaufalega víti sem hann gefur í fyrri hálfleik,“ sagði Hörður Snævar Jónsson í þættinum.
Þeir eru sammála um að Daníel muni byrja leikinn gegn Úkraínu á þriðjudag.
„Mér finnst það að hann hafi byrjað seinni hálfleikinn vísbending um að hann hafi traust þjálfaranna og það kæmi mér ekkert á óvart ef hann myndi byrja á móti Úkraínu,“ sagði Helgi áður en Hörður tók til máls á ný.
„Er það ekki bara gefið? Þú ferð ekki að hrófla í hafsentunum miðað við þennan seinni hálfleik.“