Manchester United gæti horft til miðjumannsins Weston McKennie í sumar ef marka má heimildir miðilsins GiveMeSport.
GiveMeSport greinir frá því að United hafi áhuga á þessum ágæta miðjumanni sem verður samningslaus 2026.
McKennie er leikmaður Juventus á Ítalíu en hann reyndi fyrir sér hjá Leeds á Englandi um tíma og upplifði skelfilega dvöl þar.
Bandaríkjamaðurinn hefur spilað 27 leiki fyrir Juventus á þessu tímabili og hefur þótt standa sig vel.
McKennie er aðeins 25 ára gamall og hefur ekki náð samkomulagi við Juventus um framlengingu á samningi sínum.
Aston Villa og Arsenal hafa einnig verið orðuð við McKennie sem þótti standa sig mjög illa á síðustu leiktíð sem lánsmaður Leeds er liðið féll úr efstu deild Englands.
Stuðningsmenn Leeds kunnu alls ekki að meta McKennie og sungu stanslaust um að hann væri feitur og í engu standi til að spila í úrvalsdeildinni.