Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði til margra ára, var ekki valinn í landsliðshóp Age Hareide fyrir komandi umspilsleik gegn Ísrael. Aron hefur verið að glíma við meiðsli en hann verður ekki í hlutverki utan vallar eins og margir hafa stungið upp á.
„Aron hefur aðallega verið í hópnum vegna leiðtogahæfileika utan vallar. Hann getur sagt öðrum leikmönnum hvað þeir eiga að gera og hvað ekki. Ég vildi að ég ætti pláss fyrir hann í hópnum en við þurfum leikmenn sem geta spilað 90 mínútur. Þessir leikir eru svo mikilvægir og svo erfiðir,“ sagði Hareide á blaðamannafundi í dag.
Hann útilokar þó ekki að Aron verði í hlutverki utan vallar í framtíðinni.
„Það er sennilegra að af því verði ef við komumst á EM, þá gæti hann komið inn fyrir mótið.“
Leikur Íslands og Ísrael fer fram á fimmtudag. Sigurvegari leiksins mætir Úkraínu eða Bosníu í hreinum úrslitaleik um sæti á EM.